Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 322, 118. löggjafarþing 221. mál: lyfjalög (lyfsala dýralækna, eftirlit, hámarksverð o.fl.).
Lög nr. 131 20. desember 1994.

Lög um breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994.


1. gr.

     Við 3. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Yfirdýralæknir hefur eftirlit með ávísunum dýralyfja.

2. gr.

     Við síðari málsgrein 21. gr. laganna bætist eftirfarandi: en um lyfsölu dýralækna gildir 5. mgr. 30. gr.

3. gr.

     Í stað 4. mgr. 30. gr. laganna koma tvær málsgreinar, svohljóðandi:
     Lyfjaheildsölum er heimilt að selja lyf lyfsöluleyfishöfum, stofnunum sem hafa lyfjafræðing í þjónustu sinni og reknar eru samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eða öðrum sérlögum, læknum og tannlæknum til notkunar á eigin stofum eða í sjúkravitjunum og þeim tilraunastofum sem vinna að rannsóknum lyfja. Kostnaður lækna og tannlækna vegna slíkra lyfjakaupa fellur undir rekstrarkostnað.
     Lyfjaheildsölum er jafnframt heimilt að selja dýralæknum dýralyf til notkunar á eigin stofum eða í vitjunum og til sölu frá starfsstofu sinni. Ráðherra skal, í samráði við yfirdýralækni, setja reglugerð þar sem kveðið er á um hvaða lyf dýralæknar mega selja og hvaða lyf þeir mega eingöngu sjálfir gefa dýrum. Jafnframt skal þar kveðið á um hvaða upplýsingar skuli fylgja lyfjum sem gefin eru dýrum hverra afurðir eru ætlaðar til manneldis og hvaða skýrslur ber að halda um sölu dýralyfja, sbr. 24. gr.

4. gr.

     Við 39. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lyfjaverðsnefnd ákvarðar verðlagningu dýralyfja sem seld eru án lyfseðils, sbr. 40. gr.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Lyfjaverðsnefnd ákvarðar hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og öllum dýralyfjum í heildsölu og smásölu.
  3. Í stað orðanna „þóknun til dýralækna“ í 5. málsl. 3. mgr. kemur: hámarksverð á dýralyfjum í smásölu.
  4. Við síðari málslið 4. mgr. bætist: og allra dýralyfja.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. desember 1994.